Vel heppnaður vináttudagur

Mánudagur, 04. nóvember 2013 13:24
Prentvæn útgáfa

Vináttudagurinn var að þessu  sinni hann  haldinn í Borgarnesi  19. október sl. og var það stjórn skátagildanna sem sá um dagskrána.  Um 60 gildisskátar mættu frá öllum gildum nema Hveragerði.  Bæði skátagildin á Akureyri tóku  þátt. Að auki var ýmsum gömlum skátum boðið.

Dagskrá hófst á söguloftinu á Landnámssetrinu þar sem skátalög voru sungin. Hrefna Hjálmarsdóttir las vináttuboðskapinn, Gunnar Atlason kynnti Fræðasetur skáta sem verið er að undirbúa að Ljósafossi, Ingibjörg Hargrave sagði frá skátaheimilinu í Borgarnesi sem svannasveitin þar stóð fyrir að yrði byggt, Hreinn Óskarsson fór með gamanmál tengd skáldagötunni í Hveragerði.

Margir gengu síðan í gegnum Skallagrímsgarð með Ingibjörgu til að skoða umrætt skátaheimili, aðrir fóru að skoða sýningarnar á Landnámssetrinu og þeir kaffiþyrstu létu ekki bíða eftir sér. Gamlir kunningjar nutu þess að hittast og ennfremur var ánægjulegt að sjá ný andlit.

Í flestum löndum er vináttudagurinn haldinn 25. október. Nú streyma að kveðjur til okkar, íslenskra gildisskáta, víðsvegar að. Það er greinilegt að þessi dagur er í hávegum hafður hjá gildisskátum víða um heim.

Vináttuboðskapurinn:

ISGF merkir vináttu hvar og hvenær sem er

Kæru vinir

Í rúmlega sextíu ár hafa alþjóðasamtök gildisskáta teygt sig yfir landamæri og sameinað fólk af mismunandi þjóðum og kynþáttum og fólk sem talar mismunandi tungumál, til að gleðjast saman yfir hinum mikla fjársjóði okkar, vináttunni.

Hvað er yndislegra en sönn vinátta sem býr yfir því dásamlega viðhorfi að vilja sýna  öðrum umburðarlyndi, fórnfýsi og hjálpsemi hvenær sem þess er þörf, án þess að búast við nokkru í staðinn!

Vináttudagurinn okkar þann 25. október er einstakur dagur. Við skulum gera okkar besta og leggja okkar af mörkum til að við öll upplifum samkenndina sem er svo einkennandi fyrir gildin okkar.

Í ár höldum við upp á sextíu ára afmæli heimssamtaka skátagildanna. Félagar okkar hittast á ýmsum stöðum í heiminum sem og á skype til að fagna tímamótunum. Þannig myndast alheimskeðja kveðja og hamingjuóska.

Sönn vinátta felur einnig í sér að gleyma ekki öðrum.

Ég hvet ykkur öll til að hitta eins mikið af fólki og ykkur er unnt, karla og konur, unga og aldraða… munið að sumir gildisfélagar okkar eiga ekki heimangengt… svo væri gaman að fá myndir og frásagnir sem við setjum á heimasíðu heimssamtakanna til þess að deila með öðrum félögum.

Mida Rodrigues, formaður stjórnar heimssamtaka skátagildanna mun senda ræðuna sína sem hún hélt á afmælishátíðinni í Genf til ykkar allra, til að deila þessari gleðistund með ykkur.

Við hlökkum til að fá fréttir af hátíðarstundum ykkar þar sem vináttunni er fagnað.


Með bestu kveðjum,

Cécile Bellet 
framkvæmdastjóri heimssamtaka skátagildanna ISGF

Síðast uppfært: Mánudagur, 04. nóvember 2013 14:00