Skátagildin á Íslandi

..ávallt skáti

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð
Home Kópavogur

Póstaleikur á uppstigningardag

 Sú hefð hefur skapast hjá Kópavogsgildinu að hafa póstaleik í samstarfi við skátafélagið á uppstigningardag.  Að þessu sinni var sól og blískaparveður og mættu glaðir skátar með foreldrum sínum og öfum og ömmu og tóku þátt.  Póstarnir voru að skátasið og þar má nefna hefðbundna pósta eins og skátadulmál, hnútapóst og fánaathöfn.  Einnig voru óhefðbundnari póstar sem vöktu mikla lukku s.s. dýnuviðsnúningur og tunnu rúll.  Að lokum var grillað ofan í mannskapinn og allir héldu glaðir heim eftir vel heppnaðan dag. 

alt
alt
 

Kópavogsgildið

 Í Kópavogsgildinu eru nú 23 félagar.  Við höldum fundi þriðja fimmtudag í hverjum mánuði og höfum þá fræðslu og skemmtun í bland.  Við förum í gönguferðir fyrsta sunnudag í mánuði.

Við styðjum við starf skátafélagsins t.d. með því að elda í útilegum og mótum og aðstoðum við viðhald skátaheimilisins.  

 

 Sögustiklur

1965: Laugardaginn 22. maí var 2. landsgildisþingið sett í Skátaheimilinu í Reykjavík. Hans Jörgensson gildismeistari St. Georgsgildisins í Reykjavík bauð fundarmenn velkomna og skátahöfðingi Jónas B. Jónsson flutti ávarp. Síðan tók landsgildismeistari Dúi Björnsson við stjórn fundarins. Fundarritari var Sólveig Helgadóttir. Fundinn sátu St. Georgsskátar frá Akureyri, Hafnarfirði, Keflavík og Reykjavík. Samþykkt var að leita eftir því að BÍG fengi eina til tvær síður í Foringjanum. Eiríkur Jóhannesson, Hafnarfirði, var kosinn landsgildismeistari og með honum í stjórn Kristinn Sigurðsson, Elsa Kristinsdóttir og Sigurlaug Arnórsdóttir, öll úr Hafnarfirði. Í varastjórn voru kosnir Egill Strange og Svavar Jóhannesson, báðir úr Hafnarfirði. Franch Michelsen var tilnefndur í stjórnina af BÍS.

Að þinginu loknu var haldin kvöldvaka í Skátaheimilinu og stjórnaði Hans Jörgensson henni. Þar var mikið sungið, leikþættir fluttir og gamansögur sagðar. Um 60 félagar sóttu kvöldvökuna.

Á Landsgildisstjórnarfundi 2. júní var m. a. rætt um að gildin kæmu í stað foreldraráðs í skátafélögunum og hjálpuðu til við skátastarfið.

St. Georgsgildið í Vestmannaeyjum var stofnað 2. október 1965 og voru stofnendur rúmlega 60. Gildismeistari var kjörinn séra Jóhann Hlíðar.