Skátagildin á Íslandi

..ávallt skáti

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð
Home Friðarloginn
Friðarloginn

Friðarloginn

Friðarloginn frá Betlehem barst til Íslands í fyrsta sinn 19. des. 2001

Siðurinn um Friðarljósið frá Betlehem byrjaði í Austurríki fyrir 15 árum. Það hófst með samvinnu skátanna í Austurríki og ríkisútvarpsins þar. Austurríska útvarpið kostaði för tveggja skáta til Betlehem í byrjun desembermánaðar árið 1986.

Erindi þeirra var að heimsækja Fæðingarhellinn í Betlehem og sækja þangað ljós af loga, sem hefur óslitið lifað þar allt upphafsárum kristninnar og kallaður hefur verið Friðarloginn. Hann hefur verið ímynd þess boðskapar sem ómaði hina fyrstu jólanótt um frið á jörðu. Skátarnir höfðu með sér lugtir og kveiktu á þeim með ljósi frá loganum í Fæðingarhellinum. Síðan héldu þeir heimleiðis með lugtirnar sínar með lifandi Friðarljósinu, - Friðarljósinu frá Betlehem.

Þegar heim kom útdeildu þeir Friðarljósinu til skátagilda og skátafélaga í Austurríki, en síðan sáu gildisfélagar og skátar um útbreiðslu Friðarljóssins hver í sinni heimabyggð, og með þeim hætti sem hvert og eitt félag ákvað. Alls staðar var Friðarljósið gjöf - og hverju nýju ljósi sem tendrað var fylgdi óskin og bænin um Frið á jörðu. Austurríska útvarpið annaðist kynningu á Friðarljósinu, tilveru þess og tilgangi og flutti fréttir af móttöku Friðarljóssins á hinum ýmsu stöðum. Þannig byrjaði þetta.

Friðarljósið frá Betlehem er ávallt afhent sem gjöf. Sérhvert nýtt ljós sem tendrað er með Friðarloganum er kveikt með ósk um frið á jörðu. Friðarljósið frá Betlehem er:


  • ljós samkenndar og samábyrgðar,
  • ljós skilnings milli manna og þjóða,
  • ljós friðar og vináttu,
  • ljós frelsis og sjálfstæðis,
  • ljós fyrir þá sem þjást eða eru einmana,
  • ljós fyrir hjálpsemi í verki.

Hugmyndin um Friðarlogann frá Betlehem fékk fljótlega byr undir báða vængi. Með aðstoð eldri og yngri skáta hefur Friðarljósið komið til sífellt fleiri landa, fleiri byggðarlaga og fleiri einstaklinga. Á hinum Norðurlöndunum hafa gildisskátar og skátar, félög þeirra og einstaklingar í þeim, talið mikilvægt að útbreiða sem víðast friðarlogann og óskirnar sem hann stendur fyrir.

Að þessu sinni var Friðarljósið ekki sótt í Fæðingarhellinn í Betlehem, vegna þess hræðilega ástands sem þar ríkir. En á friðarkerti hefur logað í dómkirkjunni í Lübeck í mörg ár. Sá logi var sóttur í Fæðingarhellinn í Betlehem af skátum og tendraður af þeim þar í dómkirkjunni. Þar hefur svo Friðarljósið frá Betlehem logað óslitið síðan. Og þangað var Friðarljósið frá Betlehem sótt í þetta skiptið.

Í fyrra barst Friðarljósið frá Betlehem með þessum hætti til Austurríkis, Belgíu, Bretlands, Danmerkur, Frakklands, Hvíta- Rússlands, Ítalíu, Liechtenstein, Litháen, Luxemburg, Noregs, Póllands, Rúmeníu, Rússlands, Svíþjóðar, Slóvakíu, Slóveníu, Spánar, Tékklands, Þýskalands, Úkraínu, Ungverjalands og til Bandaríkjanna.

Friðarljósið kom í fyrsta skipti til Íslands 19. des. 2001 með Dettifoss frá Árósum. Það getum við þakkað Eimskipafélagi Íslands og félögum úr St. Georgsgildunum í Danmörku. Framkvæmdanefnd hafði undirbúið móttöku þess og útbreiðslu. Hún var þannig mynduð að Landsgildið tilnefndi tvo menn, Bandalag íslenskra skáta tvo en Landsgildismeistari var formaður nefndarinnar.

Skátagildin á Íslandi, samtök eldri skáta, Bandalag íslenskra skáta og Landsbjörg, samtök björgunarsveita á Íslandi, tóku höndum saman um móttöku og útbreiðslu Friðarljóssins frá Betlehem hér á Íslandi.

Landsgildismeistari tók á móti Friðarloganum úr hendi forstjóra Eimskipafélagsins. Þar var síðan kveikt á kyndlum með Friðarloganum og gengið til Dómkirkjunnar í Reykjavík, Fyrir göngunni gekk landsgildismeistari með lugtina sem kom frá Danmörku, blysberar og fánaberar forseti Íslands, biskup Íslands, skátahöfðinginn á Íslandi og formaður Landsbjargar, landsambands hinna íslensku björgunarsveita. Gildisskátar, skátar og annað áhugafólk um Friðarlogann tóku þátt í göngunni.

Í Dómkirkjunni fór fram stutt athöfn helguð Friðarljósinu. Landsgildismeistari sagði frá því og boðskap þess um frið á jörðu. Forseti Íslands, biskup Íslands og skátahöfðingi fluttu stutt ávörp eftir að hafa þegið friðarljós á kerti sín. Þeir tendruðu síðan friðarljós á luktir fulltrúa frá gildum og skátafélögum, sem áhuga höfðu á að veita friðarljósinu móttöku.

Allir kirkjugestir höfðu fengið kerti er þeir gengu inn í kirkjuna og nú voru rafmagnsljósin í kirkjunni slökkt og friðarloginn gekk fra manni til manns uns kirkjan ljómaði í skini Friðarljósanna sem lýstu af kertum kirkjugesta. Skátar sungu skátalög og sálma og kirkjuorganistinn lék á kirkjuorgelið. Athöfnin var öll hin hátíðlegasta og eftirminnileg þeim sem þátt tóku í henni.

Björgunarsveitirnar tóku að sér að koma Friðarloganum frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar og Egilsstaða. Á móti Friðarloganum tóku Akureyri, Dalvík, Blönduós, Ísafjörður, Akranes, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Keflavík, Innri - Njarðvík, Sandgerði, Hveragerði, Höfn í Hornafirði og Egilsstaðir, og önnuðust jafnframt útbreiðslu þess.

Á stöðum þar sem skátagildi og skátafélög eru starfandi unnu þau saman að móttöku Friðarljóssins og útbreiðslu þess. Á stöðum þar sem ekkert St. Georgsgildi var starfandi sáu skátarnir um Friðarljósið. Öll Skátagildin á Íslandi tóku á móti Friðarljósinu nema eitt.

Ganga Friðarljóssins á Íslandi varð með ýmsum hætti. Á öllum viðkomustöðum sínum var það gefið í kirkjur minnt á boðskap þess og þar logaði það um jólin. Margir prestar minntust í jólapredikunum sínum á Friðarljósið frá Betlehem og loguðu nú í kirkjunni til að minna á boðskaðinn og óskina um frið á jörðu. Nær alls staðar var farið með Friðarlogann í kirkjugarða á aðfangadag og fólki gefið ljós af honum með óskinni um frið á jörðu. Þannig logaði það lýsti á leiðum vina og vandamanna á jólanóttina og um jólin.

Friðarljósið kom víða á elliheimili og sjúkrahús með boðskap sinn og birtu. Það logaði við jólatrjáasölur skáta og hjálparsveita og þar þáðu ýmsir loga frá ljósinu. Friðarljós voru tendruð á skátafundum og skátar fóru með logandi Friðarljós heim til sín, þar sem þau loguðu um jólin og allt fram á þrettándann.

Sums staðar var farið með Friðarljósið í skólana síðasta dag fyrir jólafrí. Þar tóku kennarar á móti Friðarloganum, fóru síðan með Friðarljósið í kennslustofu sína, þar sem hver nemandi fékk kerti með lifandi Friðarloga. Kennarar ræddu síðan við nemendur um Friðarljósið og nauðsyn þess að skilningur, vinátta og friðarvilji ríkti milli manna og þjóða.

Á nokkrum stöðum er siðvenja að fara með logandi kertaljós í friðargöngu á Þorláksdag. Þar voru ljósin að þessu sinni tendruð með Friðarljósinu sem komið var frá Betlehem. Á Dalvík var kveikt í áramótabrennunni með Friðarljósinu og þannig kvöddu Dalvíkingar gamla árið heilsuðu því nýja með friðarbáli og óskum og vonum um Frið á jörðu. Á Blönduósi kveiktu börn með Friðarloganum á 300 flotkertum, sem flutu síðan logandi á ánni Blöndu gegnum Blönduós og til sjávar með óskum og bænum um frið á jörðu.

Friðarljósið logar í Kamelklaustrinu í Hafnarfirði

Friðarljósið mun loga í Kamelklaustrinu í Hafnarfirði. Það logar þar á luktinni sem kom með logann Jósef. Og inni í kór kirkjunnar logar kerti með Friðarljósinu og skipt er um kerti eftir þörfum til þess að ljósið lifi óslitið. Þannig verður tvöfalt öryggi á varðveislu Friðarlogans í Kamelklaustrinu í Hafnarfirði.

Jákvætt fyrir gildisskáta og skátana

Það hefur orðið allmikil og jákvæð umræða um Friðarljósið, gildisskáta og skátahreyfinguna. Fjölmiðlar gerðu þessu máli sæmileg skil, dagblöðin sögðu frá væntanlegri komu Friðarljóssins, landsgildismeistari kom til viðtals um þetta efni í vinsælum útvarpsþætti, sem mikið er hlustað á, sjónvarpsmyndir komu í fréttatíma ríkissjónvarpsins frá afhendingu Friðarljóssins og blysförinni til Dómkirkjunnar, dagblöðin sögðu frá atburðum tengdum Friðarljósinu bæði í Hveragerði og á Ísafirði. Blöð úti landsbyggðinni gerðu hins vegar þessu máli lítil sem engin skil, enda komið fast að jólum. Það er óhætt að fullyrða að það dró mjög úr umfjöllun fjölmiðla hve seint Friðarljósið kom til Íslands.

Veröldin þarf á boðskap Friðarlogans að halda.

Kynningarblað um Friðarlogann: PDF

 



Sögustiklur

1966: Á Landsgildisstjórnarfundi 10. júní var rætt um að senda Jennu Jónsdóttur á þing St. Georgsgilda í Danmörku, en hún ætlaði á þjóðdansamót þar í landi. Einnig var ákveðið á þessum sama fundi að taka upp búning fyrir St. Georgsgildin, brúngrænar peysur. Panta átti nokkrar peysur og sýna þær á fundi í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði og senda síðan nokkrar til gildanna úti á landi.

Á Landsgildisstjórnarfundi 6.október kemur fram að ágóði af tesölu St. Georgsskáta á Landsmóti skáta 1966 á Hreðavatni hafi orðið 5.020 krónur. Landsgildið sá um móttöku gesta á Landsmótinu.

Á fundinum var einnig lagt fram bréf frá landsgildismeistara Noregs um að St. Georgsgildin í Noregi, Danmörku, Íslandi og Svíþjóð hafi fund saman, þar sem rætt yrði um nánara samband milli gildanna og skáta á ýmsum stöðum.

Landsgildismeistari, Eiríkur Jóhannesson, skýrði frá tillögu frá IFOFSAG um að halda hátíðlega 24. eða 25. október ár hvert, en 25. október er stofndagur IFOFSAG og Sameinuðu þjóðanna.

Á þessu ári reisir St. Georgsgildið í Hafnarfirði skála við Hvaleyrarvatn. Skálinn var síðar vígður 25. júní 1968 og nefndur Skátalundur.

Niðurhal skjala

Fundargerd_landthings_2011.pdf 2093kB 2011-09-11 14:16:23
Landsgildisthing_2013_fundargerd.pdf 499kB 2013-08-28 16:38:54
St_Georgs___vgsla.pdf 47kB 2010-11-10 17:41:21
VinattudagsBodskapur2011.pdf 53kB 2011-10-18 17:25:38
VinttudagsBoskapur2010.pdf 88kB 2010-11-09 21:32:38
fridarlogi_kynningarbaeklingur.pdf 604kB 2010-11-26 16:16:50
landgildisthing_2015_fundargerd.pdf 2216kB 2016-05-07 14:04:54
samthykktir_skatagildanna_a_islandi_2015.pdf 194kB 2015-05-10 23:42:50
samthykktir_skatagildin_a_islandi_2013.pdf 73kB 2013-08-28 15:38:36