Mikið hlegið á vináttudegi

Sunnudagur, 26. október 2014 18:34
Prentvæn útgáfa

Vináttudagur skátagildanna á Íslandi var að þessu sinni í umsjón gildisskáta í Hveragerði. Þegar við gengum að fallega skátaheimilinu voru tveir gildisfélagar að flagga okkur til heiðurs. Mæting var góð, yfir 50 manns frá öllum gildum nema einu. Auk þess var fulltrúi frá nýju „fullorðins“ skátasveitinni á Selfossi. 

 

Hrefna landsgildismeistari las upp vináttuboðskapinn en vináttudagurinn er haldinn hátíðlegur af gildisskátum um víða veröld. Auðvitað voru tekin nokkur skátalög en síðan tók gesturinn Norbert Möller hjúkrunarfræðingur og heilsuráðgjafi til máls. Norbert þessi ræddi um húmor og kryddaði mál sitt af stakri kímni og leikaraskap. Það lá við að gestir tæku bakföll af hlátri og sumir eru enn með strengi í magavöðvum. Þá var komið að kaffinu. Gildisskátar í Hveragerði eru frægir fyrir flott kaffiborð og grænmetisdiskurinn góði var á sínum stað enda grænmetisbóndi í hópnum. 

Hrefna tók síðan aftur til máls og rifjaði upp gamlar skátaminningar frá staðnum . Ræddi síðan um Landsmótið 2014 en aðkoma gildisskáta þar var óvenjumikil. Sumir sáu um fararstjórn, aðrir stóðu vaktina í starfsmannaeldhúsi, stjórnuðu fjölskyldubúðum, komu að skátaminjasýningu, styrktu skátana í sinni heimabyggð fjárhagslega o.fl. Þannig viljum við gjarnan starfa, miðla af reynslu okkar og þekkingu og vera góður bakhjarl fyrir skátastarf í landinu. Eftir slitin gafst enn smá tími til að heilsa upp á gamla vini og nýja. Það voru glaðir gildisskátar sem héldu heim á leið eftir frábærar móttökur skátavina í Hveragerði.

hh.
Síðast uppfært: Mánudagur, 11. maí 2015 00:12